Skákfélagið Huginn stendur fyrir metnaðarfullu barna- og unglingastarfi, bæði í suður- og norðurdeild félagsins,  en nokkur öflugustu ungmenni landsins eru innan raða félagsins.

Í Reykjavík eru að jafnaði haldnar barna- og unglingaæfingar haldnar tvisvar sinnum í viku en þær hefjast kl. 17Egill og Ívar:15 á mánudögum og miðvikudögum standa til kl. 19. Almennar æfingar eru á mánudögum og stúlknaæfingar miðvikudögum. Stelpuskákin er með eigin facebook síðu en æfingarnar eru haldnar í félagsheimili Hugins í Álfabakka 14a, Mjódd. Inngangurinn er á milli Fröken Júlíu og Subway en salur félagsins er á þriðju hæð hússins. Þegar næg þáttaka er, þá er þátttakendum skipt í hópa eftir aldri og getu. Almennar æfingar eru að jafnaði opnar öllum upp að 15 ára aldri, en þó eru fyrstu æfingar hvers mánaðar eingöngu fyrir félagsmenn í taflfélaginu og er þá m.a. unnið í litlum verkefnahópum og þátttakendur gæða sér á pizzu í hléi. Í norðurdeild eru einnig vikulegar æfingar.

Leitast er við að mæta þörfum hvers iðkanda sem geta verið ákaflega fjölbreytilegar. Krakkar allt niður í 5 ára koma á skákæfingar og fá foreldrar ráðgjöf um hvernig skákþjálfun er best háttað. Félagsmenn fá einnig einkaþjálfun eða æfingar í litlum hópum utan formlegra æfingatíma. Þeir sem eru lengra komnir sækja jafnframt hraðkvöld á vegum félagsins sem haldin eru á mánudagskvöldum (sjá nánar æfinga- og mótaáætlun) og önnur styttri mót á vegum annarra félaga.

 

Skákstig og afreksviðmið fyrir börn og unglinga

Íslensk skákstig eru notuð sem viðmið fyrir afreksmörk íslenskra skákkrakka. Til að vinna sér inn skákstig þurfa krakkar að tefla kappskákir og sigra aðra mótherja sem eru með skákstig, en þegar til lengri tíma er litið gefa skákstigin góða mynd af styrkleika skákmanna. Að auki eru alþjóðleg skákstig, sem skákmenn vinna sér inn við þátttöku í alþjóðlegum mótum, hér á Íslandi og erlendis. Hægt er að fletta upp íslenskum skákstigum á chess-results.com, og alþjóðlegum skákstigum á síðu Alþjóða skáksambandsins.

Afreksviðmið barna og unglinga má finna í reglugerð Skáksambandsins.

 

Keppnir erlendis

Þeir krakkar sem að ná afreksviðmiðum fá tækifæri til að keppa fyrir Íslands hönd á alþjóðlegum mótum.

Huginskrakkarnir hafa verið dugleg á alþjóðlegum mótum undanfarin ár. Sem dæmi má nefna að Huginsmennirnir Óskar Víkingur Davíðsson (U8), Felix Steinþjórsson (U12), Hilmir Freyr Heimisson (U12) og Dawid Kolka (U14) kepptu fyrir hönd Íslands á Evrópumóti unglinga í Budva 2013. Adam Omarsson (U8), Stefán Orri Davíðsson (U10), Óskar Víkingur Davíðsson (U10) og Heimir Páll Ragnarsson (U14) kepptu einnig á heimsmeistaramóti ungmenna sem fram fór í Grikklandi í október-nóvember 2015. Hægt er að skoða árangur þessara ungu skákmanna á heimasíðu mótsins.Óskar Víkingur náði öðru sæti í sínum aldursflokki á Norðurlandamótinu í skólaskák sem fram fór í Færeyjum í febrúar 2015 og hampaði einnig titlinum Íslandsmeistari barna. Hann bætti um betur í febrúar 2016 þar sem hann náði Norðurlandameistaratitlinum í skólaskák en mótið fór fram í Kosta í Svíþjóð.

Krakkar geta einnig krækt sér í alþjóðlega keppnisreynslu á hinum ýmsu erlendu mótum sem haldin eru árið um kring. Hér má til dæmis finna bráðskemmtilegan pistil Óskars Víkings frá opna mótinu Capo D´Orso Open á Porto Mannu á Sardiníu í júní 2015 þar sem hann tók þátt ásamt Birgi Loga Steinþórssyni, Baltasar Mána Wedholm Gunnarssyni, Stefáni Orra Davíðssyni og Heimi Páli Ragnarssyni. Félagið styður félagsmenn sína til þátttöku í alþjóðlegum mótum.

Þá má einnig nefna að Reykjavík open er alþjóðlegt mót sem haldið er á Íslandi á ári hverju í byrjun mars, en þar taka Huginskrakkar einnig þátt. Fygist með á heimasíðu mótsins.

 

Barna- og unglingaráð skákfélagsins Hugins

Barna- og unglingaráð félagsins leiðir stefnumótun á þessu sviði, en eftirfarandi einstaklingar skipa ráðið fyrir starfsárið 2015-16:

Vigfús Óðinn Vigfússon
Erla Hlín Hjálmarsdóttir
Hermann Aðalsteinsson