Skákþjálfun barna og unglinga

Heildræn skákþjálfun útheimtir mikla vinnu, og er gjarnan skipt niður í opnanaþjálfun, taktískar æfingar, strategískar æfingar og endatöfl. Ekki má gleyma líkamlega þættinum en mikilvægt er að skákkrakkar stundi holla hreyfingu til að tryggja heilbrigt líferni, en ekki síður gefur það góðan grunn fyrir gott úthald við skákborðið. Allra mikilvægast er þó að viðhalda leikgleðinni við skákborðið, að hafa þjálfunina í samræmi við aldur og getu viðkomandi, en umfram allt að njóta þess að vera í góðum félagsskap og þeirra töfra sem að skáklistin býður upp á.

Margir stíga sín fyrstu skref í kappskákum á Íslandsmóti skákfélaga, en fjölmörg börn og unglingar kepptu þar fyrir hönd félagsins árið 2015-2016. Unglingasveit Hugins keppti í fjórðu deildinni með ágætis árangri, en meðalaldur sveitarinnar er rétt yfir 10 árum. Andri Hrannar Elvarsson (f. 2008) keppti sína fyrstu kappskák og er hann boðinn velkominn í hópinn. Sveitina leiddi Stefán Orri Davíðsson (f. 2006) og var hann dyggilega studdur af liðsfélögum sínum sem voru Ísak Orri Karlsson (f. 2005), Adam Omarsson (f. 2007), Birgir Logi Steinþórsson (f. 2005), Óttar Örn Bergmann Sigfússon (f. 2006) og Baltasar Máni Wedhom Gunnarsson (f. 2005), auk Elfars Inga Þorsteinssonar og Elínar Eddu Jóhannsdóttur. Önnur börn og unglingar á vegum Hugins kepptu í almennum sveitum, en skákfélagið varð Íslandsmeistari skákfélaga 2016.

 

Félagið hefur fjölmarga skákþjálfara á sínum snærum

Vigfús Óðinn Vigfússon hefur umsjón með opnum barnaæfingum í Reykjavík, og honum til aðstoðar er Erla Hlín Hjálmarsdóttir. Landsliðskonurnar Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Elsa María Kristínardóttir hafa umsjón með stúlknaæfingum í Reykjavík. Hermann Aðalsteinsson hefur umsjón með æfingum í norðurdeild.

Í suðurdeild er félagsmönnum einnig boðið upp á aukaæfingar í litlum hópum yfir vetrartímann (2-3 saman). Þeir sem eru lengst komnir og eiga sæti í barna- og unglingalandsliðinu, sækja einnig æfingar með því. Enn aðrir sækja sér aukatíma eða þjálfun hjá skákþjálfurum.