
Kampakátir sigurvegarar. Félagarnir úr Huginn, Bragi sigurvegari mótsins, Felix sigurvegari keppenda undir 15 ára og Óskar Víkingur vinningshafi keppenda undir 9 ára.
Huginsmaðurinn Bragi Halldórsson bar sigur úr býtum á einu skemmtilegasta móti ársins: Æskan og ellin, þar sem skákmenn yfir 60 ára að aldri og þeir sem eru undir 15 ára öttu kappi við skákborðið. Keppnin var að venju hörð en glæsilegir vinningar voru í boði, peningaverðlaun fyrir efstu borð og gjafakort fyrir Evrópuflugi fyrir yngri aldursflokkana. Bragi landaði 7,5 vinningum, líkt og Guðfinnur R. Kjartansson sem varð í öðru sæti og hafnaði Sævar Bjarnason í því þriðja með 7 vinninga.
Felix Steinþórsson sem keppti í flokki undir 15 ára og Óskar Víkingur Davíðsson í flokki undir 9 ára voru einnig stoltir sigurvegarar sinna flokka, en þeir náðu báðir 6 vinningum. Úrslit mótsins er að finna hér.
Það eru Riddarinn, skákklúbbur eldri borgara, TR og OLÍS – Olíuverslun Íslands sem standa að mótinu, með stuðningi frá Æsi, klúbbi eldri skákmanna. Fjöldi Huginsmanna tók þátt og má hér sjá nokkra þeirra spreyta sig við skákborðið.