Stefán Orri Davíðsson og Halldór Atli Kristjánsson voru efstir og jafnir á Huginsæfingu á mánudaginn þegar keppt var um síðustu tvö sætin í úrslitum Barna-Blitz sem fram fer í Hörpunni laugardaginn 14. mars.
Tefldar voru 6 umferðir með 7 mínútna umhugsun enda allar digital klukkur félagsins komar niður í Hörpu fyrir Reykjavik Open. Eins og áður sagði voru Stefán Orri og Halldór Atli efstir og jafnir með 5v en Stefán Orri sjónarmun hærri á stigum. Stefán Orri fór taplaus í gegnum æfinguna en gerði tvö jafntefli við Atla Mar Baldursson og Alexander Már Bjarnþórsson. Halldór Atli tapaði hins vegar fyrir Stefáni Orra en vann alla aðra andstæðinga sína. Næstir komu svo Óttar Örn Bergmann Sigfússon og Ísak Orri Karlsson með 4v en Óttar Örn aðeins hærri á stigum.
Það er því ljóst hverjir verða í urslitum á Reykjavik Open Barna-Blitz. Frá Skákfélaginu Huginn unnu sér þátttökurétt Óskar Víkingur Davíðsson, Stefán Orri Davíðsson og Halldór Atli Kristjánsson en ásamt þeim tefla í úrslitum Vignir Vatnar Stefánsson, Mikhailo Kravchuk, Alexander Oliver Mai, Róbert Luu og Nansý Davíðsdóttir.
Meðan keppt var um þátttökurétt í Barna-Blitzinu var sér æfing fyrir þá sem höfðu ekki þátttökurétt í því móti eða voru búnir að vinna sér þátttökurétt. Á þeirri æfingu var Dawid Kolka efstur, Óskar Víkingur Davíðsson annar og Alec Elías Sigurðsson þriðji.
Ekkert hlé verður á æfingunum meðan á Reykjavíkurskákmótinu stendur þannig að næsta æfing verður mánudaginn 16. mars.